Fuglategundir eru aðlagaðar mismunandi fæðuvali. Sumar eru sérhæfðar fræætur og hafa sterkbyggðan gogg til fræáts. Aðrar eru sérhæfðar skordýraætur og enn aðrar eru meiri alætur.
Þess vegna þýðir ekki að bjóða hvað sem er og mikilvægt að aðlaga matargjafirnar að þeim tegundum sem eru líklegar til að líta við í garðinum. Auk þess er umhverfið á gjafastaðnum líklegt til að takmarka eða opna á fæðugjafir fyrir tilteknar tegundir.
Fuglar eru nokkuð vanafastir og sækja á staði sem þeir þekkja. Þess vegna þarf stundum smá þolinmæði og staðfestu til að venja fugla á nýjan gjafastað og stundum getur tekið nokkrar vikur að fá fyrstu heimsóknina. Gott er að nota t.d. sundurskorin epli og brauðbita sem sjást úr nokkurri fjarlægð til að hæna fugla að í byrjun.
Gott er að hafa í huga að færa gjafastaðina til svo smitálagi milli fugla af völdum sníkjudýra og sjúkdóma sé haldið í lágmarki og æskilegt er að sópa og þrífa fóðurbretti og fuglaböð reglulega.
Skynsamlegt er að fóðra fræætur (snjótittlinga, auðnutittlinga) á öðrum stöðum en t.d. þresti og stara sem velja aðra fæðu, en misjafnt er milli tegunda hvar þær kjósa helst að sækja sér fæðuna.
Snjótittlingur
Fóður: Maískurl, heilt hveitikorn, fræblanda Luxus.
Aðstaða: Dreifa fóðri á bersvæði/stóra grasflöt eða stórt fóðurbretti á opnum stað.
Atferli: Eru eindregnar fræætur sem koma helst í stórum hópum þegar snjóar og jarðbönn eru í úthaga.
Skógarþröstur - Svartþröstur - Gráþröstur - Stari
Fóður: Rúsínur, sólblómafrækjarnar, mjölormar, fitukúlur, tólgarkönglar, fylltar kókoshnetur, próteinblanda, jarðhnetukurl, brauð, epli/perur, ber, kjötsag, tólg, smjör, soðið/uppbleytt korn o.fl.
Aðstaða: Dreifa fóðri á jörð eða fóðurbretti.
Atferli: Þrestir og starar eru hálfgerðar alætur meðal fugla en eru minnst fyrir heilt korn og lítið fyrir maískurl nema vel uppbleytt eða soðið. Þrestir eru einfarar og bítast oft sín á milli um matargjafir. Auk þess gefa þeir gjarnan eftir þegar starar mæta á staðinn sem eru hópfuglar og þá er gott að dreifa fóðrinu inn undir runna og á staði þar sem þrestirnir fá frið. Þiggja mjölorma á sumrin og bera jafnvel í ungana. Gott að bleyta þá upp svo þeir fari ekki þurrir í ungana.
Auðnutittlingur - Krossnefur - Barrfinka
Fóður: Sólblómafrækjarnar, heilt sólblómafræ, fræblanda (Luxus), maískurl, hirsi, hampfræ, fitukúlur.
Aðstaða: Gefa úr fóðurskömmturum eða á fóðurbrettum sem standa í 1,5-2 metra hæð á staur eða hengdir í tré. Fara sjaldan á jörðina í fæðuleit.
Atferli: Ofangreindar tegundir eru eindregnar fræætur sem koma gjarnan í litlum hópum og eru nokkurn tíma að finna og aðlagast nýjum gjafastað. Því gildir þrautseigja og að gæta þess að það sé ferskt og gott fóður í boði. Þegar auðnutittlingar hafa vanist nýjum gjafastað eru þeir mjög vanafastir og koma líka að sumarlagi, sér í lagi ef sólblómafrækjarnar eru í boði.
Gæsir og endur
Fóður: Heilt hveitikorn, byggkorn, sólblómafrækjarnar, hafrar, brauð, ber.
Aðstaða: Gefa á bersvæði/ opnum svæðum, oft nærri ferskvatni.
Atferli: Best er að byrja að gefa þessum fuglum á stöðum þar sem þeir eru þegar að venja komur sínar enda eru þeir mjög vanafastir í atferli og setjast almennt ekki í litla húsagarða eða þar sem lítil yfirsýn er yfir umhverfið.
Músarrindill
Fóður: Þurrkaðir mjölormar, fitukúlur, tólgarpylsur, tólg, hunda/ kattamatur, kjötsag.
Aðstaða: Mylja fóður í smáar agnir og bræða saman við tólg sem er svo slett inn í tré og runna.
Atferli: Músarrindill er ekki algengur í görðum en vanafastur ef hann á annað borð er til staðar. Hann er sérhæfð skordýraæta en þiggur fínt malaða, próteinríka fæðu úr dýraríkinu í bland við fitu, t.d. tólg eða uppbræddar fitukúlur sem slett er á greinar neðarlega í þéttum runnum.
Hrafn
Fóður: Katta- og hundamatur, mjölormar, fitukúlur, kjötmeti og innmatur.
Aðstaða: Gefa á opnum svæðum.
Atferli: Hrafninn er var um sig og getur verið lengi að venjast á gjafastaði en fundvís á fæðuuppsprettur og því nokkuð auðvelt að venja hann á matargjafir. Gæta skal þess að matargjafirnar séu ekki að draga að mávager og önnur meindýr.
Silkitoppa - Hettusöngvari
Fóður: Fitukúlur, feitmeti, þurrkuð ber og ávextir, epli/perur.
Aðstaða: Hengja fóðrið í tré og runna.
Atferli: Silkitoppa er reglubundinn flækingur og sérhæfð berja- og ávaxtaæta sem leitar nánast eingöngu í ávexti og ber. Hettusöngvari er líka algengur flækingur sem sækir í feitmeti og ávexti.
Hjá Líflandi færðu mikil úrval smáfuglafóðurs og gjafabúnaður. Kynntu þér úrvalið í vefverslun og í verslunum okkar um landið!