Gríðarleg þáttaka var í Smákökusamkeppni Kornax og Gestgjafans sem haldin var um miðjan október. Alls bárust 122 uppskriftir og sýnishorn af þeim til keppninnar. Dómarar áttu úr vöndu að ráða því kökurnar í ár voru mjög góðar og ljóst að metnaður keppenda var mikill. Dómarar í keppninni voru Albert Eiríksson rithöfundur með meiru, Rannveig Hrólfsdóttir gæðastjóri hjá Kornaxi, Sigríður Björk Bragadóttir, ritstjóri Gestgjafans, og Þorbjörn Ólafsson, viðskiptastjóri fyrirtækja hjá Nóa Siríusi.
Sigurvegarinn að þessu sinni reyndist vera Margrét Theódóra Jónsdóttir og hlaut hún vegleg verðlaun að launum. Dómarar voru sammála um að kökurnar hennar væru fyllilega þess verðar að hljóta nafngiftina Jólasmákakan 2012.
1. sæti Margrét Theódóra Jónsdóttir
Kókoskaramellukökur
Kökur:
180 g smjör, mjúkt
1/2 bolli sykur
2 bollar Kornax hveiti
1/4 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
1/2 tsk vanilludropar
1 msk mjólk
Kókostoppur:
300 g sætur kókos (má blanda venjulegum og sætum saman til helminga)
320 g Nóa Siríus töggur
4 msk rjómi
Ofanábráð:
225 g Nóa Siríus súkkulaði
1 tsk smjör
Aðferð: Hitið ofninn í 180°C. Hrærið smjör og sykur saman þar til það er létt og kremkennt. Blandið þurrefnum út í og síðast vanilludropum og hnoðið saman. Bætið mjólk saman við ef þarf, ekki er víst að þess þurfi, deigið á ekki að vera mjög klístrað, þannig að hægt sé að fletja það út. Fletjið degið út á hveitistráðu borði (u.þ.b. 1/2 cm á þykkt). Stingið út kökur með piparkökuformi og gerið gat í miðjuna. Raðið á ofnplötu klædda bökunarpappír og bakið kökurnar í 10-12 mín. Kælið.
Bræðið töggurnar með rjómanum yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofninum. Hrærið kókosnum út í og dreifið honum yfir kökurnar.
Bræðið súkkulaði með smjöri. Hjúpið botninn á hverri köku með því að dýfa þeim í súkkulaðið. Skreytið kökurnar með afganginum af súkkulaðinu.
Texti er úr Kökublaði Gestgjafans.