Við hefðbundna sýnatöku Matvælastofnunar í vor, mældist ein af innfluttum áburðartegundum úr úrvali Líflands yfir leyfilegu hámarki kadmíuminnihalds. Um var að ræða vörutegundina LÍF 26-6+Se, tvígildan, selenbættan NP áburð, en í henni mældist þungmálmurinn kadmíum (Cd) um 90 mg/kg P. Leyfilegt hámark er 50 mg/kg P. Ellefu vörutegundir áburðar voru prófaðar en aðeins LÍF 26-6+Se mældist yfir mörkum. Aðrar tegundir voru vel innan marka hvað leyfilegt kadmíuminnihald varðar. Næringarefnainnihald varanna var innan leyfðra vikmarka.
Lífland flutti inn 199,2 tonn af umræddri vöru vorið 2021 en búið var að selja og dreifa öllum áburðinum þegar niðurstöður skiluðu sér frá Matvælastofnun.
Lífland hefur borið þessa niðurstöðu undir breska framleiðandann. Þar hefur allt kapp verið lagt á að hafa kadmíuminnihald í algjöru lágmarki. Kadmíum er þungmálmur sem fylgir gjarnan fosfórgjöfum, en svo virðist sem leifar fosfórgjafa með of hátt kadmíum hafi leynst í hrávörugeymslum framleiðandans fyrir mistök. Í Bretlandi er leyfilegt hámark kadmíums í áburði hærra en hérlendis, sem veldur því að áburðarefni með hærra innihald eru stundum í meðförum í blöndunarstöðvum. Hinsvegar hefur alla tíð verið lögð þung áhersla á það af hálfu Líflands að notast sé við fosfórgjafa með lágmarks innihaldi kadmíums og gagnkvæmur skilningur á mikilvægi þessa verið fyrir hendi. Framleiðandinn mun fara yfir verkferla við móttöku hrávöru og vinna að því að fyrirbyggja að svona lagað endurtaki sig.
Vegna fráviksins í kadmíuminnihaldi verður varan LÍF 26-6+Se afskráð og frekari sala og dreifing vörunnar óheimil nema að fyrir liggi niðurstaða sem sýnir fram á kadmíuminnihald innan marka.
Nánari upplýsingar veitir Jóhannes Baldvin Jónsson vörustjóri áburðar í johannes@lifland.is eða s. 540-1139.